Fótbolti

Víkingurinn mætir Messi

Sindri Sverrisson skrifar
Pablo Punyed hefur verið valinn í landslið El Salvador.
Pablo Punyed hefur verið valinn í landslið El Salvador. vísir/Hulda Margrét

Pablo Punyed, miðjumaður Íslands- og bikarmeistara Víkings í fótbolta, hefur verið valinn í nýjasta landsliðshóp El Salvador.

Landsliðs El Salvador á fyrir höndum þrjá vináttulandsleiki nú í mars. Liðið mætir þá Bonaire og Hondúras en einnig stórstjörnunum í landsliði Argentínu, með sjálfan Lionel Messi innanborðs.

Pablo, sem verður 34 ára í næsta mánuði, lék síðast landsleik í október 2021 þegar hann kom inn á sem varamaður í leik gegn Panama í undankeppni HM. Samkvæmt Transfermarkt hefur hann alls leikið 27 landsleiki á sínum ferli.

Síðasti leikur El Salvador í þessu verkefni er gegn Hondúras, rétt eftir miðnætti að íslenskum tíma, aðfaranótt 27. mars. Pablo ætti því að vera mættur til landsins fyrir næsta leik Víkinga sem verður gegn Val í Meistarakeppni KSÍ, mánudagskvöldið 1. apríl.

Fyrsti leikur Víkinga á nýrri leiktíð í Bestu deildinni verður svo gegn Stjörnunni 6. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×