Sigurður Bjartur hefur verið á mála hjá KR frá vorinu 2022 en þá fékk KR hann frá uppeldisfélagi hans Grindavík.
Skiptin hafa legið í loftinu síðustu daga en Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, staðfesti tíðindin í samtali við 433.is.
FH hefur leitað styrkingar í fremstu línu frá því að Kjartan Henry Finnbogason lagði skóna á hilluna í haust. Sigurður Bjartur fer nú sömu leið og Kjartan Henry fór fyrir síðustu leiktíð, úr KR í FH.
Sigurður mun nú eflaust veita Úlfi Ágústi Björnssyni samkeppni um framherjastöðuna en sá mun ekki klára komandi leiktíð með FH þar sem hann heldur vestur um haf í nám á miðju tímabili.
Sigurður Bjartur verður 25 ára gamall í ár en hann skoraði átta deildarmörk í 36 leikjum fyrir KR á tveimur tímabilum sínum með félaginu. Hann hafði skorað 17 mörk í 21 leik með Grindavík sumarið 2021 áður en hann fór í Vesturbæinn.
Besta deild karla fer af stað með leik Víkings og Stjörnunnar þann 6. apríl. FH spilar sinn fyrsta leik í deildinni er liðið heimsækir Breiðablik þann 8. apríl.