Handbolti

FH-ingar endur­heimtu þriggja stiga for­skot á toppnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einar Bragi Aðalsteinsson var markahæstur í liði FH-inga með níu mörk.
Einar Bragi Aðalsteinsson var markahæstur í liði FH-inga með níu mörk. Vísir/Anton Brink

Topplið FH vann öruggan ellefu marka sigur er liðið tók á móti Fram í Olís-deildar karla í handbolta í kvöld, 36-25.

Framarar héldu í við toppliðið framan af fyrri hálfleik og þegar um stundarfjórðungur var liðinn var staðan 8-6, FH-ingum í vil. FH-ingar byggðu þó upp gott forskot á lokamínútum fyrri hálfleiks og leiddu með fimm mörkum þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 17-12.

Heimamenn héldu svo áfram að auka forskotið á upphafsmínútum síðari hálfleiks og voru komnir átta mörkum yfir þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka. 

Eftir það litu FH-ingar aldrei um öxl og náðu mest þrettán marka forskoti í stöðunni 36-23. Framarar skoruðu hins vegar seinustu tvö mörk leiksins og niðurstaðan varð því ellefu marka sigur FH, 36-25.

Einar Bragi Aðalsteinsson var markahæstur í liði FH-inga með níu mörk, en í liði Fram var Marel Baldvinsson atkvæðamestur með sjö stykki.

FH-ingar tróna enn á toppi Olís-deildar karla, nú með 31 stig eftir 17 leiki, þremur stigum meira en Valur sem situr í öðru sæti. Fram situr hins vegar í fimmta sæti með 19 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×