Mara­dona­slagurinn í járnum eftir jafn­tefli í Napolí

Það var hart barist á Ítalíu í kvöld.
Það var hart barist á Ítalíu í kvöld. Vísir/Getty

Það er allt galopið í einvígi Napoli og Barcelona eftir fyrri leik liðanna á Maradona-leikvanginum á Ítalíu í kvöld. Liðin mætast á ný eftir þrjár vikur á Spáni.

Einvígi liðanna var það sem líklega flestir biðu spenntir eftir í 16-liða úrslitunum. Bæði lið hafa verið í brasi í titlvörn í heimalöndum sínum, Napoli þó öllu meiri en liðið er um miðja Serie A en Barcelona í 3. sæti La Liga.

Fyrri hálfleikur í leiknum í kvöld var markalaus og í raun frekar tíðindalítill. Barcelona var meira með boltann en sköpuðu sér ekki mikið af færum og lið Napoli var fremur dauft í sínum aðgerðum.

Fyrsta markið kom hins vegar í upphafi síðari hálfleiks. Það skoraði markahrókurinn Robert Lewandowski á 60. mínútu þegar hann kláraði vel framhjá Alex Meret í marki heimamanna. Heimaliðið hresstist aðeins eftir þetta og jöfnunarmarkið kom fimmtán mínútum síðar.

Victor Osimhen gerði þá afar vel í að halda Inigo Martines frá sér í teignum og var skyndilega einn á auðum sjó. Hann kláraði af öryggi fram hjá Marc-Andre Ter Stegen í marki Barcelona og staðan orðin 1-1.

Napoli ógnaði meira síðustu mínúturnar en skapaði þó ekkert dauðafæri. Ilkay Gundogan átti skot rétt fyrir leikslok sem fór framhjá. Leikurinn fjaraði út og liðin sættust á skiptan hlut. Það er því allt í járnum fyrir síðari leik liðanna í Barcelona sem fer fram þann 12. mars. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira