Innlent

Sjö gistu fanga­geymslur lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið.
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið. Vísir/Vilhelm

Sjö gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun eftir nokkuð annasama nótt. Nokkuð var um tilkynningar vegna einstaklinga í annarlegu ástandi, slagsmála og þjófnaða.

Fjórar tilkynningar bárust vegna einstaklinga í annarlegu ástandi í miðborginni en ein varðani aðila sem var sagður raska næturró með öskrum. Lofaði hann að hætta látunum og stóð við það.

Ein tilkynning barst um ölvaðan einstakling í póstnúmerinu 105 og var honum ekið heim til sín. Þá var tilkynnt um slagsmál í miðborginni og þjófnað í verslununum í póstnúmerunum 103 og 108.

Einnig var brotist inn í heimahús í 108 og meintur gerandi handtekinn skammt frá.

Töluvert var um útköll vegna ölvunar í umdæminu Hafnarfjörðu/Garðabær/Álftanes og þá var tilkynnt um líkamsárás í Kópavogi. Þar var gerandinn handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Tveir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum og tveir fyrir að aka án réttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×