Skoðun

Hungur­sneyð er yfir­vofandi

Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Á Gaza eru 335,000 börn í lífshættu vegna vannæringar - enginn á íbúi á Gaza fær daglega nauðsynlega næringu. Allir Gazabúar eru svangir, fjórðungur sveltur og streðar við að finna mat og drykkjarhæft vatn.

Hungursneyð er yfirvofandi.

50,000 vanfærar konur skortir heilbrigðisþjónustu og næga næringu - fjöldi ungbarna deyr.

Og Ísrael hindrar flutning á lífsnauðsynjum til Gaza.

Við þessar aðstæður ákveður Bjarni utanríkisráðherra að stöðva stuðning Íslands við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna UNRWA - eða eins og hann orðaði það sjálfur svo kuldalega - að frysta framlög til Flóttamannahjálparinnar - sem er hryggjarstykkið í hjálparstarfi fyrir nauðstadda Gazabúa - og tekur þar með undir áróður Netanyahu sem er þekktur fyrir lygar og falsfréttir. Honum trúir Bjarni.

Rúm milljón Gazabúa hefur hópast saman í Rafahborg. Sprengjum er stöðugt varpað á Rafah, svæðið sem Gazabúum var sagt að flýja til - og sagt vera öruggt svæði.

Í þessum hópi er fólkið sem hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi - fólk sem er í bráðri lífshættu.

Bjarni er enn að skoða málið en ítrekar að íslenskum yfirvöldum beri engin skylda til að hjálpa þessu fólki og koma því í öruggt skjól. Bjarni er nefnilega talnaglöggur maður og segir að mannúð sé miðuð við höfðatölu - eða krónutölu - og sé mjög flókin.

Nú hefur Netanyahu fyrirskipað að Rafah skuli tæmd af fólki - því morðsveitir hans ætla að ráðast á borgina til að uppræta og drepa Hamas.

Þessi aðgerð mun leiða til þess að enginn mun komast frá Rafah til Egyptalands og þaðan til Íslands.

En á meðan Bjarni bíður í rólegheitum og skoðar málin hafa þrjár konur með hjartað á réttum stað lagt af stað og sýnt að það er ekkert flókið að hjálpa fólki þegar viljinn er fyrir hendi.

Börnin á Gaza eru okkar börn - börnin heim.

Höfundur er formaður Félagsins Ísland - Palestína.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×