„Ég sé bara bjarmann út um gluggann,“ segir Páll Valur sem býr núna í Þingholtunum í Reykjavík en þangað er hann búinn að flytja alla sína búslóð.
„Við erum þannig búin að slíta naflastrenginn. Það er ekki búandi við þetta þarna suður frá. Því miður er það þannig.“
Hann segir marga á þeim vagni að það sé ekki hægt að búa við þessar aðstæður en að einnig sé kjarni af fólki sem enn ætli sér heim.
„En mér sýnist þetta vera nákvæmlega eins og jarðvísindamenn hafa verið að segja. Að þetta muni standa í einhver ár. Þetta allavega lítur ekki vel út.“
Hann segir það ekki beint hafa verið óvænt að heyra um gosið í morgun. Atburðarásin virðist sú sama og í síðustu gosum. Það sé kvikusöfnun sem endi svo með eldgosi. Óvissan felist svo alltaf í því hvar það komi upp. Það verði svo áhugavert að þessu gosi loknu að sjá hvort að kvikusöfnunin hefst á ný.
„En þetta er búið að vera gríðarlegt álag andlega. Maður verður að halda áfram, en þetta er búið að vera gríðarlega erfitt,“ segir Páll Valur.
Bíða eftir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar
Hann starfar í Fisktækniskólanum í Grindavík sem hefur nú aðsetur í Sjávarklasanum á Granda í Reykjavík. Hann segir nemendur núna í verknámi en að hann fylgist vel með þeim.
„Skólinn verður væntanlega starfræktur annara staðar. En konan mín er atvinnulaus. Hún var leikskólastjóri í leikskóla sem var flautaður af. Við erum bara að bíða eftir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar og svo munum við hefja nýtt líf hér. Ég reikna fastlega með því,“ segir Páll Valur.
Hann segir börnin í Reykjavík en þessi atburðarás hafi riðlað öllum þeirra plönum. Þau hjón hafi verið búin að plana að stækka húsið og flytja dóttur sína heim. Það hafi því öll framtíðarplön breyst.
„Þetta er ofboðslegt högg en maður er svona að átta sig á því að þetta er raunveruleikinn. Nú er bara næsti kafli að hefjast hjá manni í lífinu.“