Íslendingar unnu leikinn, 24-26, en sigurinn dugði þeim ekki til að komast í forkeppni Ólympíuleikanna sem var opinbert markmið þeirra fyrir EM.
Elliði stóð að venju í ströngu í leiknum, jafnt í vörn sem sókn. Hann kláraði þó ekki leikinn þar sem hann fékk sína þriðju tveggja mínútna brottvísun þegar fimm mínútur voru eftir.
Eftir að Boris Zivkovic minnkaði muninn í 21-23 hljóp hann í gegnum miðjuhringinn þegar Íslendingar ætluðu að hefja leik að nýju.
Elliði sá sér leik á borði og kastaði boltanum í Zivkovic og freistaði þess þar með að fá brottvísun á Austurríkismanninn, enda er bannað að hlaupa í gegnum miðjuna eftir mark. Þetta sprakk þó í andlitið á Elliða því dómarar leiksins ráku hann sjálfan af velli.
„Þetta var heimskulegt. Þetta var óíþróttamannsleg hegðun. Hann gerði þetta beint fyrir framan nefið á dómaranum. Hann hefði átt að vera klókari. Þetta er kjánalegt,“ sagði Jørgensen á TV 2 eftir leikinn í gær.
Elliði skoraði tvö mörk úr fjórum skotum í leiknum gegn Austurríki sem Ísland varð að vinna með fimm marka mun til að komast í forkeppni Ólympíuleikanna.