Ýmir Örn Gíslason hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í sigrinum á Króatíu í gær, 30-35. Ými sló til Zvonimirs Srna á 10. mínútu og fékk beint rautt spjald frá dómurum leiksins.
Íslenska liðið hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum undanfarinn sólarhring eða svo. Gísli Þorgeir Kristjánsson meiddist snemma leiks gegn Króatíu og hefur lokið leik á EM.
Samherjar Gísla hjá Magdeburg, Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason, misstu af leiknum gegn Króatíu vegna veikinda og þá eru Óðinn Þór Ríkharðsson og Kristján Örn Kristjánsson einnig orðnir veikir.
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari hefur kallað í Teit Örn Einarsson, leikmann Flensburg, og hann þarf væntanlega að kalla til fleiri leikmenn til að eiga hreinlega í lið á morgun.
Leikur Íslands og Austurríkis hefst klukkan 14:30 á morgun. Íslendingar þurfa væntanlega að vinna að minnsta kosti fimm marka sigur til að komast í forkeppni Ólympíuleikanna.