Þetta kemur fram í nýrri færslu jarðvísindamanna á vef Veðurstofunnar.
Þar kemur fram að eins og greint hafi verið frá í gær þá séu áfram skýr merki um landris undir Svartsengi og enn sé of snemmt að fullyrða um hraðann á landrisinu þar sem svo stutt sé síðan gaus á svæðinu.
„Verið er að meta gögn frá GPS mælum til að fá heildarmat á stöðuna. Aflögun virðist þó vera svipuð og eftir eldgosið 18. desember.
Um 200 jarðskjálftar hafa mælst við kvikuganginn síðan í gær, sá stærsti 1,4 að stærð. Tæplega 70 smáskjálftar frá miðnætti. Þetta eru færri skjálftar en mældust deginum áður. Veðrið hefur haft áhrif síðustu daga en samt er búið að draga úr fjölda skjálfta.
Áfram er hætta mjög mikil innan Grindavíkur í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær,“ segir á vef Veðurstofunnar.