„Snemma morguns varð strax ljóst að dagurinn yrði sögulegur eftir að eldgos hófst í Grindavík. Við mamma fylgdumst sorgmæddar með atburðum þar milli hríða. Seinni partinn horfðum við síðan á Ísland Svartfjallaland, ekki fyrsti landsleikurinn sem ég horfi á öskrandi og æpandi en í fyrsta skiptið með glaðloft, mæli alveg með því allavega yfir spennandi handboltaleikjum.
Enn eftir leik var ákvörðun tekin að senda mig í keisara þar sem að okkur varð ekkert ágengt. Í miðri aðgerð þurfti að svæfa mig og missti ég því af því þegar að lítil, svolítið stór, fullkomin stelpa kom í heiminn,“ skrifar Svava Kristín við færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún greinir frá komu frumburðarins.
Dramatískur lokakafli
„Dramatískur lokakafli hjá okkur mæðgum, en við stóðum uppi sem sigurvegarar. Þetta er búið að vera langt ferli hjá mér frá upphafi og hefur ferlið í heild tekið á bæði andlega og líkamlega, allt fram á loka mínútu, en þannig enda oft bestu sigrarnir. Nú erum við mæðgur að njóta hverrar mínútu saman,“ skrifar Svava Kristín í ferlið sem hefur reynst henni erfitt.
Í Íslandi í dag á Stöð 2 í ágúst í fyrra opnaði Svava Kristín sig um ferlið að verða ólétt sem tókst eftir nokkrar tilraunir með aðstoð fyrirtækisins Livio.
Hún lýsti slæmri reynslu af fyrirtækinu þar sem samskiptaleysi og skortur af upplýsingum hafi einkennt ferlið frá upphafi.
„Ég veit að starfsfólkið vill vel en engin samkeppni á markaðnum gerir það að verkum að fólk vandar sig síður að mínu mati og þyrfti að gera betur,“ sagði Svava Kristín.
Hún var ekki tilbúin að bíða lengur eftir hinum eina rétta og ákvað að eignast barn sjálf.