Hlutfall erlendra ríkisborgara er afar breytilegt milli sveitarfélaga eða frá rúmum 61,7% niður í 3,8% þó að jafnaði sé hlutfallið um 18,7% þegar horft er til allra sveitarfélaga.
Hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara eru í Mýrdalshreppi. Alls eru 61,7% íbúa hreppsins með erlent ríkisfang, 601 erlendir ríkisborgarar af alls 974 íbúum hreppsins. Hvergi á landinu hefur íbúum fjölgað hlutfallslega jafnmikið og í hreppnum.
Næst hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara er í Skaftárhreppi með 43,7% og Bláskógabyggð með 37,6% íbúa. Öll þrjú sveitarfélögin eiga það sameiginlegt að leggja mikið upp úr þjónustu við erlenda ferðamenn á Suðurlandi.
Lægsta hlutfall erlendra ríkisborgara eru í Árneshreppi á Ströndum. Alls eru 3,8% íbúa hreppsins með erlent ríkisfang, tveir erlendir ríkisborgarar af alls 53 íbúum hreppsins. Næst lægsta hlutfall erlendra ríkisborgara er í Skagabyggð með 4,6% og Eyjafjarðarsveit með 5,5% íbúa. Skammt á eftir koma Hörgársveit og Reykhólahreppur.
Þegar horft er til landshluta þá er hæsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang á Suðurnesjum, 29,9% íbúa og Vestfirðir koma næst með 22,6% íbúa. Lægsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang er á Norðurlandi eystra, 14,1%.
Alls voru 70.307 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. júlí síðastliðinn og fjölgaði þeim um 5.722 einstaklinga frá 1. desember 2022 eða um 8,9%. Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 1.062 einstaklinga eða um 0,3%.