Fjallað er um málið á vef BBC í dag en þar segir að umhverfisverndarinnar hafi varað við því að slíkur gröftur geti haft alvarleg áhrif á sjávarlíf en búast má við nokkurri ljós – og hljóðmengun á sjávarbotni samhliða greftinum.
Atkvæðagreiðslan sem fer fram í dag varðar aðeins norska landhelgi en í fréttinni segir að mögulega muni nást samkomulag á alþjóðavettvangi á þessu ári um slíkan námugröft.
Þar kemur einnig fram að búist sé við því að atkvæðagreiðslan verði samþykkt án nokkurra vandræða á norska þinginu í dag. Norsk yfirvöld hafa enn fremur gefið það út að þau ætli sér ekki að gefa út leyfi til námugraftrar á hafsbotni fyrr en búið er að framkvæma frekari rannsóknir á umhverfisáhrifum.
Verði gröfturinn samþykktur á norska þinginu opnar það 280 þúsund ferkílómetra svæði í norskri landhelgi fyrir slíkum námugrefti en það svæði er stærra en Bretland.
Á hafsbotni er hægt að finna málma eins og liþíum, skandín og kóbalt sem er hægt að nota í til dæmis batterí. Málmarnir eru aðgengilegir í námum á landi en námurnar eru staðsettar í fáum löndum og er aðgengi að þeim ekki tryggt. Sem dæmi er slíkar námur að finna í Kongó en þar er að finna stærstu kóbaltnámur heimsins. Í Kongó eru víða átök sem getur haft áhrif á aðgengi að námunum.
Evrópusambandið og Bretland hafa bæði kallað eftir tímabundnu banni á slíkum námugrefti vegna umhverfisáhrifa. Fjallað er nánar um málið á vef BBC.
Vilji fólk kynna sér tillöguna er hægt að gera það hér á vef norska þingsins.