Sport

Ban­eitraður snákur skapaði stór­hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominic Thiem var skiljanlega ekki sama þegar baneitraður snákur birtist við völlinn í miðjum leik.
Dominic Thiem var skiljanlega ekki sama þegar baneitraður snákur birtist við völlinn í miðjum leik. Getty/Mike Stobe

Fjörutíu mínútna töf varð á tennisleik í Ástralíu um helgina eftir að óboðinn gestur lét sjá sig.

Austurríkismaðurinn Dominic Thiem var þarna að keppa á móti Ástralanum James McCabe í forkeppni fyrir Brisbane International mótið í tennis.

Töfin varð þegar baneitraður snákur sást vera á leiðinni inn á tennisvöllinn.

„Þetta skapaði stórhættu,“ sagði Dominic Thiem eftir leikinn sem hann vann á endanum og tryggði sér sæti í 32 manna úrslitum.

Snákurinn sást á miðjum vellinum og það þurfti að kalla til meindýraeyði til að ná honum.

Þegar hann náðist loksins kom í ljós að þetta var fimmtíu sentimetra langur eitursnákur sem ber nafnið Pseudonaja textilis á latnesku. Kannski er hægt að þýða þetta Brúni ástralski snákurinn.

Þessi eitursnákur er með þeim hættulegri í heimi og dregur flesta til dauða sem verða fyrir snákabiti í Ástralíu.

„Ég elska dýr og ekki síst exótísk og framandi dýr. Þeir sögðu hins vegar að hann hafi verið baneitraður og hann komst mjög langt. Þetta var því mjög hættulegt ástand,“ sagði Thiem.

Besta tennisfólk heims er nú statt í Ástralíu því fram undan er síðan fyrsta risamót ársins sem er Opna ástralska mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×