Sport

Krefjast þess að dómarinn dæmi ekki fleiri Forest leiki

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rob Jones gaf Willy Boly sitt annað gula spjald fyrir tæklingu sem virtist flestum fullkomnlega lögleg.
Rob Jones gaf Willy Boly sitt annað gula spjald fyrir tæklingu sem virtist flestum fullkomnlega lögleg.

Nottingham Forest hafa skrifað bréf til Howard Webb, formanns dómarasamtakanna PGMOL, þar sem þess er krafist að Rob Jones dæmi enga fleiri leiki hjá félaginu eftir að hann sendi Willy Boly af velli í 3-2 tapi gegn Bournemouth. 

Rob Jones sýndi Willy Boly sitt annað gula spjald og rak hann af velli fyrir tæklingu sem virtist fullkomnlega lögleg. Samkvæmt heimildarmönnum The Telegraph barst Nottingham Forest afsökunarbréf frá Howard Webb þar sem gengist var við mistökum dómarans og beðist afsökunar á þeim.

Nottingham Forest vilja taka málið lengra, þetta er í annað sinn á tímabilinu sem Jones gerist sekur um mistök í leik þeirra og félagið hefur óskað eftir því að hann dæmi enga fleiri leiki hjá þeim. 

Auk þess hefur Forest farið fram á allar hljóðupptökur af samtali milli dómara leiksins og þeirra sem sátu í VAR herberginu. Enn er óljóst hvort VAR dómarar leiksins hafi yfirhöfuð skoðað málið, að minnsta kosti var ekki sýnt frá því í sjónvarpsútsendingu. 

Forest sagði Rob Jones hafa rætt við þjálfara liðsins í hálfleik og rökstutt ákvörðun sína. Annað vafaatriði kom svo upp síðar í leiknum þar sem boltinn fór í hönd leikmanns Bournemouth en Forest fékk enga vítspyrnu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×