Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en útboðin voru í umsjón verkefnastjórnar ÍL-sjóðs í samstarfi við Lánamál ríkisins.
Þar segir að öll eign sjóðsins í RIKS30, að markaðsvirði um tuttugu milljarðar króna, var nýtt til að kaupa í flokki HFF34 en framkomin tilboð hljóðuðu upp á um 28 milljarða króna. Í skiptiútboði RIKS33 og HFF44 var öllum framkomnum tilboðum tekið að fjárhæð um 18 milljarða króna. Nánari upplýsingar um útboðin er að finna í tilkynningu sjóðsins í Kauphöllinni.
Þá kemur fram að næstkomandi þriðjudag fari fram uppgjör og að við það lækki skuldir sjóðsins um sem nemur 38 milljörðum króna sem dregur úr neikvæðum vaxtamuni sjóðsins. Í ljósi eftirspurnar umfram framboð í útboðum dagsins segir að það sé til skoðunar hjá verkefnisstjórn ÍL-sjóðs að efna til frekari markaðsaðgerða.
Samráði um frumvarpsdrög lokið
Í tilkynningunni segir einnig að opnu samráði í tengslum við drög að frumvarpi til heildarlaga um slit ógjaldfærra opinberra aðila sé nú lokið.
Frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í október síðastliðnum og búið er að fara yfir umsagnir um drögin og niðurstöður samráðsins hafa verið birtar á vef samráðsgáttarinnar.