Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari frá Stefáni Magnússyni, markaðsstjóra Coca-Cola European Partners á Íslandi til Vísis. Heimildin greindi frá því að hlutdeild Bonaqua á markaðnum hér á landi sé nú 11-12 prósent.
Hún hafi minnkað til muna eftir að nafni drykkjarins var breytt. Vísir reyndi að ná tali af Önnu Regínu Björnsdóttur, forstjóra CCEEP vegna málsins, án árangurs.
Nafnabreytingin vakti mikla athygli þegar hún var tilkynnt í júlí. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emiritus í íslenskri málfræði, gagnrýndi breytinguna meðal annars og sagði miður að íslensku nafni væri kastað fyrir róða.
Taki tíma að kynna nýjan drykk
„Salan á Bonaqua gengur vel og er samkvæmt áætlun sem við settum okkur í byrjun júlí þegar Bonaqua fór fyrst í sölu,“ segir Stefán í svari sínu til Vísis.
„Eins og gefur að skilja þá tekur tíma að kynna nýtt vörumerki og í samburði við sölutölur og dreifingu sem Toppur var með þegar það hætti eftir 30 ár, þá gerum við ráð fyrir að Bonaqua verði komið á sama stað á nýju ári.“
Áætlanir fyrirtækisins geri ráð fyrir að hlutdeild Bonaqua á markaði hækki hægt og sígandi eftir því sem fleiri prófi drykkinn og með því að byggja upp vörumerkið með vörunýjungum ásamt sölu- og kynningarstarfi.
„Eins og fyrr segir þá er drykkurinn er aðeins búinn að vera 5 mánuði á markaði og við gerum ráð fyrir því að Bonaqua þróist í að verða á sama stað og Toppur var á nýju ári. Svo ætlum við okkur auðvitað að ná enn meiri sölu í framhaldinu.“