„Eftir bæjarstjórnarfund í vor lofaði bæjarráð að tekið yrði til greina að auka áhrif ungmennaráðs, t.a.m. með fulltrúa í ráðum og nefndum og með launagreiðslum við vinnu á fjárhagsáætlun næsta árs. Slíkt hefur þó því miður ekki verið gert en aðeins er minnst á ungmennaráð einu sinni í drögum að greinargerð með fjárhagsáætlun þar sem segir að Ungmennaráð skipuleggi sumarstarf ungmenna í samvinnu við Vinnuskólann og fleiri aðila innan bæjarins. Það er ekki hlutverk okkar,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að samkvæmt fjárhagsáætluninni standi til að láta grunnskólanema skaffa eigin námsgögn og stytta afgreiðslutíma skólabókasafnanna.
„Ekki bætir það að skólamatur hefur hækkað í verði og samkvæmt fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar ætlar bærinn enn að niðurgreiða 33% eins og áður. Við biðjum bæinn um að koma í móts við hækkun skólamatar svo að fjölskyldur þurfi ekki að borga meira þrátt fyrir hækkun verðs skólamatar. Stök máltíð fer frá kr. 487 yfir í kr. 709.“
Ungmennaráðið segir að sú staðreynd að hvorki bæjarráð né önnur ráð og nefndir tali lítið sem ekkert við ungmennaráðið um málefni er varða ungmenni í Hafnarfirði sé óásættanlegt. Leggur ráðið fram fimm tillögur:
- „Ódýrari skólamáltíðir: dregið verði til baka sú umtalsverða hækkun á skólamáltíðum og mismunur endurgreiddur sbr. málefnasamning Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
- Kostnaður minnkaður: dregin verði til baka sú ákvörðun að nemendur komi með eigin skriffæri sjálf í skólann frá og með næsta hausti.
- Aukin áhrif ungmenna: að ungmennum verði gert kleift að tilnefna fulltrúa á launum í a.m.k. fræðsluráð.
- Starf að verðleikum: að bæjaryfirvöld meti starf ungmennaráðs að verðleikum og launi nefndarmönnum fyrir fundarsetu.
- Kynningar: að tryggt verði að allar fjárhagsáætlanir héðan í frá verða vel kynntar ungmennum og öðrum þeim sem eiga hlut að máli.“