Valur Páll Eiríksson skrifar frá Stafangri
Slóvenskir fjölmiðlar höfðu greint frá því að Gros væri í Serbíu að hitta sérfræðinga vegna meiðsla sem hún hefur glímt við í læri. Hún myndi jafnvel ekki mæta til leiks fyrr en í öðrum leik liðsins gegn Angóla á laugardag.
Svo virðist vera raunin en danski miðillinn TV 2 hafði eftir slóvenskum fréttamönnum í Stafangri í dag að Gros verði ekki með slóvenska liðinu.
Gros, sem er hægri skytta, er í 18 manna leikmannahópi sem Slóvenar hafa gefið upp en aðeins 16 leikmenn verða svo á skýrslu í leik dagsins gegn Íslandi. Hún verði því ekki í 16 manna hópnum.
Slóvenía er þegar án leikstjórnandans Elizabeth Omoregie, sem tekur ekki þátt á mótinu vegna meiðsla, og eru því tveir sterkustu leikmennirnir í útilínu Slóveníu frá í leik dagsins.
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari Íslands, sagði í samtali við Vísi fyrir æfingu landsliðsins í gær að hann gerði ráð fyrir að Gros myndi spila leikinn og tæki mið út frá því við undirbúning Íslands.
Vegna meiðsla Omoregie og fleiri í útilínu Slóvena færi sóknarleikur liðsins jafnvel enn meira í gegnum Gros, samkvæmt Arnari.
Nú virðist sem það fari út um gluggann og gæti því þurft að gera áherslubreytingar í varnarleik Íslands.
Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 17:00 og verður lýst beint á Vísi og gerð góð skil.