Herforingjastjórn Búrma tók völdin árið 2021, þegar þeir héldu því fram að umfangsmikið kosningasvindl hefði átt sér stað í kosningunum sem haldnar voru í nóvember 2020. Flokkur Aung San Suu Kyi, fyrrverandi leiðtoga landsins, vann mikinn sigur í þessum kosningum en herforingjastjórnin hefur aldrei fært sannanir fyrir ásökunum um svindl.
Umfangsmikil mótmæli fóru fram eftir valdaránið en þeim var mætt af mikilli hörku og voru fjölmargir mótmælendur skotnir til bana af hermönnum.
Sjá einnig: Blóðbaðið í „Búrma“ heldur áfram
Átökin hafa að mestu verið milli hersins og hóps sem kallast PDF. Sá hópur var stofnaður í kjölfar mótmælanna en meðlimir hans hafa ekki jafn mikla reynslu og eru ekki jafn vel búnir og vopnaðar fylkingar landsins sem hafa verið af ýmsum þjóðarbrotum.
Þrír slíkir hópar í Shan-héraði, við landamæri Kína, tóku nýverið höndum saman gegn herforingjastjórninni og hafa unnið röð sigra gegn hernum. Uppreisnarmennirnir sögðu í gær að heilt herfylki hermanna hefði gefist upp fyrir þeim í Shan-héraði og búast uppreisnarmennirnir við því að ná Laukkaing, stærstu borg svæðisins, á sitt vald á næstunni.
Fregnir hafa borist af fleiri hópuppgjöfum hermanna.

Þessi velgengni hefur samkvæmt frétt BBC gefið öðrum uppreisnarhópnum byr undir báða vængi og á stjórnarherinn undir högg að sækja víða um Búrma. Þá hafa meðlimir PDF víða gert bandalag við aðra vopnaða hópa og aukið þannig getu sína.
Á mánudaginn gerðu meðlimir uppreisnarhóps sem hafði áður gert vopnahlé við herforingjastjórnina skyndiárásir á herstöðvar í fimm bæjum í Rakhine-héraði, í vesturhluta Búrma. Einnig hafa fregnir borist af átökum í norðvesturhluta landsins, í austurhluta þess og suðausturhluta. Það er barist víðsvegar í Búrma.
Í Shan-héraði segja Sameinuðu þjóðirnar að barist sé í -að minnsta kosti tíu bæjum. Vitað sé til þess að minnst 45 óbreyttir borgarar hafi fallið og 71 hafi særst.
#Myanmar : resistance fighters belonging to the ethnically Bamar BPLA taking a junta APC the recently captured out for a test ride.
— Thomas van Linge (@ThomasVLinge) November 16, 2023
Source: https://t.co/Jye8W0QeVK pic.twitter.com/hGASP44Rmj
Ríkið með tvö nöfn
Mjanmar gengur í raun undir tveimur nöfnum. Það hét lengi, og er víða enn kallað, Búrma. Árið 1989, eftir að þáverandi herstjórn landsins barði niður hreyfingu mótmælenda sem vildu lýðræðisumbætur, með miklu ofbeldi, breytti herstjórnin nafni landsins í skyndi.
Herinn sagði þá að Búrma væri nafn sem tengdist nýlendutíma ríkisins og skildi aðra þjóðflokka landsins útundan. Nafnið Búrma er sama nafn og stærsti þjóðflokkur landsins ber.
Heiti ríkisins var ekki breytt í landinu sjálfu. Á burmnesku heitir Mjanmar enn formlega Búrma.
Á heimsvísu var ákveðin tregða til að notast við Mjanmar en það hefur breyst á undanförnum árum, með aukinni hreyfingu í átt að lýðræði í landinu og minni áhrifum hersins.