Forsætisráðherra Palestínu biðlaði til alþjóðasamfélagsins í dag að þrýsta á endalok stríðsátaka á Gasa. Alþingi samþykkti í dag ályktun utanríkismálanefndar um vopnahlé með öllum greiddum atkvæðum. Við fjöllum um málið og sjáum einnig myndir frá fjölmennum mótmælum fyrir utan bandaríska sendiráðið.
Fjögur prósent Íslendinga eru með erfðabreytileika sem veldur því að þeir lifa skemur en þeir sem bera hann ekki. Við ræðum við Kára Stefánsson, forstjóra íslenskrar erfðagreiningar, um nýja rannsókn. Þá kíkjum við á nýja ferju sem mun sigla í stað Baldurs yfir Breiðafjörð, verðum í beinni frá hönnunarverðlaunum Íslands og í beinni frá styrktartónleikum fyrir barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Í Íslandi í dag kíkir Vala Matt á tvær hressar konur sem standa í miklum framkvæmdum; þær brjóta veggi, múra gólf og gera allt sjálfar.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.