Karlar voru í meirihluta þeirra sem fengu skipunarbréf eða fjórtán en konurnar voru tíu. Með skipuninni verða lögregluþjónar meðal annars varðstjórar og rannsóknarlögreglumenn.
Hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embættinu hefur hækkað á undanförnum árum og eru þær nú rúmlega þriðjungur lögregluliðsins að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í maí að það vantaði fleiri lögregluþjóna til starfa.
„Auðvitað vantar okkur fleira fólk,“ segir Sigríður Björk um mönnunina. Nýjasti útskriftarárgangurinn er sá stærsti í sögunni, 90 manns, meira en tvöföldun frá fyrra ári. Enn sé verið að vinna upp skuld frá árunum 2014 til 2016 þegar útskriftarnemar náðu ekki að manna þann fjölda sem hætti vegna aldurs.
Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað og fjöldi erlendra ferðamanna margfaldast.