Erlent

Kastaði lifandi rottum inn á McDonalds

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ungur maður hefur verið handtekinn fyrir að hafa kastað lifandi rottum inn á veitingastað McDonalds í Óðinsvé.
Ungur maður hefur verið handtekinn fyrir að hafa kastað lifandi rottum inn á veitingastað McDonalds í Óðinsvé. Vísir/Samsett

Lögreglan á Fjóni hefur lagt fram ákæru á hendur tvítugum manni fyrir að hafa kastað rottum á McDonalds-veitingastað í Óðinsvé.

Samkvæmt DR tilkynnti lögreglan það í gær að hún hefði handtekið manninn og ákært hann fyrir gróf spellvirki í tengslum við málið. Hann var í kjölfarið yfirheyrður og honum sleppt lausum en hann hafi verið ákærður.

Á miðvikudaginn köstuðu tveir ungir menn lifandi rottum inn í McDonalds-veitingastað. Síðan hefur myndband af atvikinu farið eins og eldur um sinu á dönskum samfélagsmiðlum þar sem tveir menn sjást grýta rottunum inn á veitingastaðinn. Yfir myndbandinu er skrifað „Sniðgöngum MCD/ISRAEL - Rottur á MCD fyrir utan Vollsmose.“

Það virðist því vera að gjörnaður sé til að mótmæla stuðningi McDonalds-samsteypunnar við Ísrael og ísraelska herinn. Það var tilkynnt í síðasta mánuði að McDonalds-veitingastaðir í Ísrael skyldi veita hermönnum í ísraelska hernum mat þeim að kostnaðarlausu.

Lögreglan á Fjóni segir myndbandið tengjast beint hinum ákærða en vill ekki tjá sig frekar um málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×