Reglulega hefur komið til átaka á landamærum Ísrael og Líbanon undanfarnar vikur en þau átök hafa ekki verið umfangsmikil. Eldflaugum hefur verið skotið úr norðri og Ísraelar hafa svarað með eigin eldflaugum, loftárásum og stórskotaliði.
Samkvæmt frétt Wall Street Journal er um að ræða SA-22 loftvarnarkerfi, sem einnig er kallað Pantsir. CNN segir að talið sé að loftvarnarkerfið hafi upprunalega verið ætlað Assad en hann hafi samþykkt að málaliðar Wagner komi því í hendur vígamanna Hezbolla.
Eftir að Jevgení Prígósjín, eigandi Wagner Group, dó í sumar, er varnarmálaráðuneyti Rússlands sagt hafa tekið yfir stjórn málaliðahópsins.
Hættir að segja Rússum frá loftárásum
Bæði málaliðar Wagner og vígamenn Hezbollah hafa starfað í Sýrlandi um árabil, þar sem þeir hafa barist með stjórnarher Sýrlands. Hezbollah nýtur stuðnings Írans, eins og Hamas-samtökin, og Ísraelar hafa gert reglulegar loftárásir á vopnasendingar Írana til Hezbollah í Sýrlandi á undanförnum árum.
Í frétt Bloomberg frá því í morgun segir að þessum loftárásum hafi farið fjölgandi og að Ísraelar séu hættir að láta Rússa, sem hafa lengi verið með viðveru í Sýrlandi, vita af árásunum. Nokkur ár eru síðan Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði Benjamín Netanjahú, þáverandi og núverandi forsætisráðherra Ísrael, að Hezbollah yrði ekki leyft að ná fótfestu í suðvesturhluta Sýrlands, við landamæri Ísrael.
Ísraelar hafa látið Rússa vita af loftárásum sínum í Sýrlandi en það hefur ekki verið gert undanfarnar vikur.
Samband ríkjanna hefur beðið nokkra hnekki sem meðal annars má rekja til nánara sambands Rússlands og Írans, eftir innrás Rússa í Úkraínu. Rússar tóku einnig nýverið á móti sendinefnd frá Hamas-samtökunum í Moskvu.
„Rússar eru í raunar að styðja óvini okkar,“ sagði Amos Yadlin, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu ísraelska hersins, við Bloomberg.
Leiðtogi Hezbollah heldur ræðu
Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, er sagður ætla að haldaræðu í Líbanon í dag en það verður í fyrsta sinn frá því stríðið milli Ísraela og Hamas hófst. Ræðunnar er beðið með eftirvæntingu og verður hún greind í þaula, varðandi það hvort hún innihaldi vísbendingar um ætlanir samtakanna.
Hezbollah-samtökin eru talin mjög öflug og eru mjög áhrifamikil í Líbanon. Þúsundir vígamanna tilheyra samtökunum en þeir eru taldir mjög reynslumiklir af átökum í Sýrlandi og í Írak. Þá eru samtökin sögð eiga gífurlegt magn eldflauga sem þau gætu skotið að Ísrael.