„Nei, það var nú ekkert samráð haft við mig. En hins vegar lá fyrir að afstaða Íslands var alveg skýr fyrir atkvæðagreiðsluna. Hún var sú að við styðjum vopnahlé af mannúðarástæðum, við teljum mjög brýnt að átökin verði stöðvuð, að það skapist líka færi til að koma hjálpargögnum og neyðarbirgðum inn á svæðið. Mín afstaða, og míns þingflokks, er hins vegar sú að mannúðarkrísan á þessu svæði sé slík að það hefði verið rétt í raun og veru að styðja tillöguna, einfaldlega vegna þess að ástandið er gríðarlega alvarlegt,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV.
Hún segist skilja að fólk setji spurningarmerki við atkvæðagreiðsluna enda blasi við að neyðin sé mikil. Þegar hún er spurð að því hvort afgreiðsla Íslands komi á óvart svarar Katrín: „Kannski var ég bara að vona að það hefði náðst saman. Og auðvitað er það gríðarlega vont að það náist ekki saman, eða breiðari samstaða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á nálgun á þessi mál.“
Þingflokkur Vinstri grænna sagði í yfirlýsingu í gær að flokkurinn hefði viljað greiða atkvæði með tillögunni. Forsætisráðherra segir að haft hafi verið samband við utanríkisráðherra í tengslum við yfirlýsinguna en hún segist ekki getað svarað hver afstaða Bjarna Benediktssonar, utanríkisráðherra og þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sé í málinu. Hún segir almenna samstöðu ríkja innan ríkisstjórnarinnar.
„Ég hef gert grein fyrir minni afstöðu og míns þingflokks í þessu máli við mína félaga í ríkisstjórninni. Eins og ég hef farið yfir þá er þetta ekkert einföld staða. Ég held að það sé ríkur skilningur, af því að um grundvallaratriðin erum við sammála. Og það er okkar stefna Íslendinga. Við höfum viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki, við tölum alltaf um tveggja ríkja lausn og þessi afstaða hefur komið skýrt fram,“ segir Katrín við RÚV að lokum.