Eftir þessa velgengni er nú talið að Swift, sem er 33 ára gömul, sé orðin milljarðamæringur, í dölum talið. Samkvæmt útreikningum blaðamanna Bloomberg er virði Swift 1,1 milljarður dala. Það samsvarar rúmum 153 milljörðum króna, en tekið er fram í greiningunni að áætlunin sé frekar íhaldssöm en eitthvað annað og byggir eingöngu á virði lagasafns hennar, húsa hennar, tekna frá streymisveitum og sölu á miðum varningi og öðru.
Í greiningu miðilsins segir að velta Eras sé á við verga landsframleiðslu smáríkja.
Áætlað er að tónleikaferðalagið, þar sem Swift hélt 53 tónleika í 21 borg Bandaríkjanna, hafi bætt 4,3 milljörðum dala við landsframleiðslu ríkisins. Miðasalan ein og sér er talin vera rúmlega sjö hundruð milljónir dala. Hver miði kostaði 254 dali, eða rúmar 35 þúsund krónur, í miðasölu.
Dæmi eru um að fólk hafi borgað mun meira fyrir miða í endursölu.
Eras heldur áfram í næsta mánuði en þá mun Swift halda tónleika í Suður-Ameríku og halda svo til Asíu og því næst til Evrópu, þar til hún snýr aftur til Bandaríkjanna í október á næsta ári. Ferðalaginu á að ljúka í lok nóvember á næsta ári.