Gemma skaust upp á stjörnuhimininn eftir að hún tók þátt í bresku raunveruleikaþáttunum Love Island í fyrra. Þar byrjaði hún með fisksalanum Luca Bish og komust þau alla leið í úrslitaþáttinn.
Hún og Luca hættu saman þremur mánuðum eftir að þáttunum lauk, í nóvember á síðasta ári. Breskir miðlar höfðu allan tímann fullyrt að Michael Owen, faðir hennar og fyrrverandi knattspyrnumaður, hefði aldrei lagt blessun sína yfir sambandið.
Gemma hefur sagst hafa verið einhleyp allar götur síðan, þrátt fyrir að hafa verið orðuð við pólóleikmanninn Tommy Severn. Breska götublaðið The Sun hefur eftir henni af samfélagsmiðlum að hún hafi ákveðið að einbeita sér að áhugamálinu sínu en Gemma er hestakona. Nú hafi hún hins vegar loksins gengið út.
Hinn heppni er hinn lítt þekkti boxari Aadam Hamed. Hann er helst þekktur fyrir að vera sonur boxarans Prince Naseem Hamed sem átti nokkra heimsmeistaratitla í boxi, í léttvigtarflokki frá 1992 til 2002. Aadam steig fyrst í hringinn í ágúst síðastliðnum og fór þá með sigur af hólmi gegn boxaranum Vojtech Hrdy frá Tékklandi.
Breska götublaðið hefur eftir ónefndum heimildarmanni að þau Gemma og Aadam hafi stungið saman nefjum í nokkra mánuði. Þau séu enn ekki opinberlega saman þó ferðin til Dubai sé til marks um að það kunni brátt að breytast.
