Þetta kemur fram í tilkynningu frá Origo. Þar segir að engar breytingar verði á starfseminni en að nýja félagið verði alfarið í eigu Origo hf. Allir núverandi starfsmenn heilbrigðislausna flytjist yfir í hið nýja félag Helix. Félagið tekur formlega til starfa 1. nóvember næstkomandi.
Segir í tilkynningunni að lausnir og vöruúrval Helix styðji við íslenskt heilbrigðiskerfi með því að auka öryggi og gæði í daglegum störfum heilbrigðisstarfsfólks sem skili sér í hagræðingu á rekstri heilbrigðisstofnana. Heilsuvera er einn þekktasti hugbúnaður úr smiðju heilbrigðislausna Origo auk fleiri hugbúnaðarlausna.
Arna Harðardóttir hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra hins nýstofnaða félags og mun leiða það áfram. Hún hefur tekið stóran þátt í stefnumótun og breytingarferli sviðsins undanfarna mánuði. Hún hóf störf hjá Origo í nóvember 2020 og leiddi sölu- og markaðsstýringu á sviði heilbrigðislausna áður en hún tók við stöðu framkvæmdastjóra Helix.