Skoðun

Inn­gilding og hvernig hún reiðir sig á ó­launaða vinnu er­lendra kvenna

Christina Milcher skrifar

Félagið okkar skipar sæti í ríkis- og sveitafélagsnefndum og er oft boðið á fundi sem og vinnufundi þar sem málefni innflytjenda eru rædd. Þar að auki hafa önnur félög, til dæmis innan verkalýðshreyfingarinnar oft samband við okkur varðandi ýmsa viðburði eins og til dæmis kvennaverkfallið í dag. Stjórnin okkar er skipuð af sjálfboðaliðum sem þýðir að til að mæta á þessa fundi þurfa fulltrúar okkar að taka sér frí úr vinnu þar sem fundirnir eru yfirleitt á vinnutíma. Flestir aðrir þátttakendur þessara funda eru starfsfólk á vegum ríkisins, borgarinnar eða stéttafélaganna og eru því þarna á vegum vinnunnar sinnar. Aðeins ein af þessum stofnunum greiðir fulltrúa okkar fyrir fundarsetu. Auk þess sem fulltrúi okkar er yfirleitt sá eini af erlendum uppruna. Þetta skapar mikið álag á fulltrúann okkar, enda er ekki nóg að hann mæti heldur er hann líka í forsvari fyrir breiðan og fjölbreyttan hóp.

Fyrir þessar stofnanir er þátttaka okkar leið til að sýna að þeim er umhugað um inngildingu. Hins vegar er vert að spyrja hvers vegna nánast ekkert af starfsfólki þessara stofnana sé af erlendum uppruna? Við erum sannarlega þakklát fyrir inngildandi nálgun skipuleggjanda kvennaverkfalls þessa árs en á sama tíma finnst okkur að stéttarfélögin ættu að nýta þetta tækifæri til að rannsaka þennan ójöfnuð innan sinna raða. Það er flott hjá forsætisráðherranum að taka þátt í kvennaverkfallinu en okkur finnst að það heði mátt nýta þetta tækifæri til að ræða ráðningarferlið í ráðuneytunum og öðrum ríkisstofnunum. Það er enginn skortur á færum konum af erlendum uppruna á Íslandi, við ættum því ekki að þurfa að reiða okkur á ólaunað vinnuafl til þess að fá sæti við borðið.

Höfundur er varaformaður í W.O.M.E.N samtök kvenna af erlendum uppruna.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×