Japanskir miðlar hafa flutt fréttir af málinu í dag og nú birt myndband sem tekið var á öryggismyndavélar í Osaka. Má þar sjá íslenska manninn ganga út úr bílnum og kýla bílstjórahurðina áður en leigubílstjórinn, sem er 59 ára gamall, stígur út og íslenski karlmaðurinn slær til hans.
Greinilegt er að mennirnir eiga í orðaskiptum og er sá íslenski sagður af lögreglu ekki hafa viljað greiða 3.000 yen, eða tæpar 2.800 krónur, fyrir farið.
Íslenski maðurinn er sagður hafa hlaupið á brott eftir að hafa kýlt leigubílstjórann og var hann handtekinn á laugardag eftir að japanska lögreglan bar á hann kennsl af myndböndum öryggismyndavéla.
Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir málið á borði borgaraþjónustu ráðuneytisins.