Í Rocky-myndunum fór Young með hlutverk Paulie, mágs og besta vinar hnefaleikakappans Rocky Balboa sem Sylvester Stallone túlkaði.
Young lagði sjálfur stund á hnefaleika á sínum yngri árum en hann fór með hlutverk Paulie í sex Rocky-myndum, þeirri síðustu árið 2006 sem bar heitið Rocky Balboa.
New York Times segir að dóttir leikarans staðfesti andlátið, en Young lést 8. þessa mánaðar.
Stallone minntist félaga síns á Instagram í gær. „Til míns kæra vinar, Burt Young. Þú varst ótrúlegur maður og listamaður. Ég og heimurinn munu sakna þín mikið. Hvíl í friði,“ skrifar Stallone.
Young var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aukahlutverki í fyrstu Rocky-myndinni sem kom út árið 1976. Myndin vann til Óskarsverðlauna sem besta mynd ársins.
Young birtist einnig í myndum á borð við Chinatown þar sem hann lék á móti Jack Nicholson og í leikstjórn Roman Polanski. Hann kom síðast fram í kvikmyndinni Win Win frá árinu 2011 sem skartaði Paul Giamatti í aðalhlutverki.