Þá er talið að vígamenn Hamas hafi rænt minnst hundrað Ísraelsmönnum, bæði almennum borgurum og hermönnum. Utanríkisráðherra segist hafa þungar áhyggjur af framvindu stríðsins.
„Viðbrögð mín og íslenskra stjórnvalda eru að fordæma þessa hryðjuverkaárás. Við þekkjum ótrúlega flókna, langvarandi og hryllilega stöðu þarna. Þær fréttir sem maður fær af svæðinu eru hryllilegar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Stjórnvöld hér fordæmi ávallt brot á alþjóðalögum, hvenær sem þau birtast og hvaða ríki eða samtök það eru sem brjóti þau lög.

„Sem manneskja þá er hryllingur að horfa upp á þetta og maður finnur til með öllu því fólki, þeim saklausu borgurum beggja vegna landamæranna sem verða fyrir barðinu á þessum átökum.“
Staðan alþjóðlega orðin mjög slæm
Í morgun bárust fregnir af því að samtökin Hezbollah í líbanon hefðu skotið eldflaugum á Ísrael og ísraelsmenn svarað í sömu mynt. Ástandið við Gólan-hæðir, þar sem lengi hefur verið deilt um yfirráð er því enn eldfimara en áður.
„Þau búa yfir enn öflugri og þyngri vopnum og það myndi þýða að þetta með einhverjum hætti breiðist út. Það er mikið áhyggjuefni,“ segir Þórdís.
Erfitt sé að spá fyrir um framhaldið.
„En ég get sagt að ég hef raunverulegar og alvarlegar áhyggjur af því hvernig þessu kannn að vinda fram,“ segir Þórdís.
Mikil spenna sé víða, sem boði ekki gott fyrir alþjóðasamfélagið.
„Það er í mínum huga mjög alvarleg staða komin upp [á alþjóðavísu]. Auðvitað var innrás Rússlands inn í Úkraínu meiriháttar áfall og við sjáum hvernig það þróast og eftirmála. Svo sjáum við bara spennustigið hækka mjög víða,“ segir Þórdís.
„Við erum með Armeníu og Aserbaídsjan, við erum núna með þetta og fleiri svæði þar sem spennustig er að hækka. Við erum enn því miður, og þetta er ég búin að segja síðan í febrúar 2022, að taka skref í ranga átt. Það þýðir að leiðin til baka verður lengri og ég veit ekki hversu lengi þetta verður vont áður en þetta verður betra.“
Tilbúi til að veita þeim aðstoð sem þurfa
Þá verði íslensk stjórnvöld tilbúin til að veita þeim sem biðja aðstoð.
„Palestína hefur í gegn um árin verið áhersluland varðandi aðstoð. Þegar svona tilfelli koma upp, í þessu tilfelli bein hryðjuverkaárás á annað ríki, erum við með okkar mekanisma eða tól til að verða að liði eins og til dæmis mannúðaraðstoð. Við munum að skoða allar slíkar leiðir en skoða hvernig málum vindur fram og svo hlusta á það sem kallað er eftir og eftir getu bregðast við því hvar þörfin er mest og hvaðan köllin koma.“
Þórdís segir að borgaraþjónustan hafi verið í sambandi við alla þá Íslendinga sem eru á svæðinu. Þar á meðal er níutíu manna hópur íslenskra ferðamanna á vegum ferðaskrifstofunnar Kólumbus er staddur í Jerúsalem og verið að vinna í að koma hópnum heim.
„Að höfðu samráði við okkar samstarfsaðila hérna í Ísrael sem eru tengdir ferðamálaráði Ísrael, sem gætir fyllsta öryggis allra þeirra hópa sem eru hérna á þessum dögum. Þá tókum við þá ákvörðun að aflýsa frekari dagskrá þessarar ferðar, sem átti að vera fram á laugardag,“ segir Sigurður K. Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kólumbusar og fararstjóri hópsins. Farþegar hafi tekið þessu fagnandi, hlakki til að komast heim en Sigurður ítrekað að hópurinn sé öruggur.
„Við erum bara að bíða rólega eftir fregnum hvenær verður hægt að koma okkur heim. Það er ekki ljóst á þessari stundu en það skýrist vonandi innan eins sólarhrings eða svo,“ segir Sigurður K. Kolbeinsson.