Áður hafði Héraðsdómur Reykjaness í janúar í fyrra dæmt hann í tólf mánaða fangelsi. Jóhannes áfrýjaði þeim dómi til Landsréttar og var niðurstaða í málinu kveðin upp í dag. Sá dómur bættist við fyrri dóm þar sem Jóhannes var dæmdur í sex ára fangelsi.
Jóhannes var dæmdur í nóvember 2021 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum. Átján mánaða fangelsið nú er hegningarauki og hefur Jóhannes því nú verið dæmdur í sjö og hálfs ára fangelsi fyrir brot gegn fimm konum.
Fór fram á að þinghaldið yrði opið
Jóhannes Tryggvi var ákærður fyrir nauðgun, í starfi sínu sem nuddari dagana 3. og 5. janúar 2012, á meðferðarstofu sinni í Reykjavík, með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola, án hennar samþykkis með því að káfa á kynfærum hennar, rassi og brjóstum og setja fingur inn í leggöng hennar, henni að óvörum, þar sem hún lá léttklædd á nuddbekk.
Þá sagði í ákæru að hann hafi hann beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að misnota það traust sem hún bar til hans. Fjöldi vitna var kallaður til í málinu sem þótti sögulegt, þar sem þinghald þess var opið, sem er ekki venjan þegar kemur að kynferðisbrotum.
Ragnhildur Eik Árnadóttir, lögfræðingur og brotaþoli í máli Jóhannesar ræddi við fréttastofu í febrúar í fyrra, en hún hafði farið fram á að þinghaldið yrði opið.
Þrátt fyrir þá meginreglu að þinghald sé opið í dómsmálum hefur myndast ákveðin hefð um lokað þinghald í kynferðisbrotamálum. Ragnhildur sagði þá þessa hefð sérkennilega.
„Ef að ég hefði verið í lokuðu þinghaldi þá hefði ég ekki mátt vera viðstödd. Ég hefði ekki fengið aðgang að gögnum, ég hefði ekki vitað neitt um neitt og ekki vitað hvað færi fram. Auðvitað var rosalega óþægilegt að þurfa að segja sína sögu í smáatriðum með blaðamenn í salnum en ég tel ekki að mínir hagsmunir séu æðri hagsmunum samfélagins akkúrat í mínu máli,“ sagði Ragnhildur.