Forsetinn segir að hann „geti ekki“ stöðvað framkvæmdirnar þar sem fjármögnun þeirra hafi verið samþykkt árið 2019. Fulltrúar ráðuneytis heimavarnamála segja knýjandi þörf fyrir landamæramúrinn, en rúmlega 2,2 milljónir manna sem hafa reynt að smygla sér inn í Bandaríkin hafa verið handteknir það sem af er ári.
Í frétt BBC segir að Biden sæti sífellt meiri gagnrýni vegna síhækkandi fjölda farandfólks í stórborgum á borð við New York. Er hann sagður hafa sofið á verðinum vegna stöðunnar á landamærunum að Mexíkó.
Biden og bandarískir embættismenn benda á að tilkynnt hafi verið um fjármögnun framkvæmdanna í júní, en að fé hafi verið veitt til þeirra á fjárlagaárinu 2019, á þeim tíma til Donald Trump var forseti.
Um er að ræða framkvæmdir á um 32 kílómetra kafla í Starr-sýslu, strjálbýlu landsvæði í Rio Grande-dalnum.
Biden fullyrti árið 2020 að hann myndi ekki láta byggja eitt fet af nýjum landamæramúr, yrði hann kjörinn forseti.
Þingmenn Demókrata, þau Henry Cuellar og Alexandria Ocasio-Cortez, eru í hópi þeirra sem hafa gagnrýnt fyrirhugaðar framkvæmdir og hafa þau hvatt samflokksmann sinn, Biden forseta, til að snúa við málinu. Segja þau nauðsynlegt að líta frekar á rót vandans þegar kæmi að fólksflutningunum. Þessi „fjórtándu aldar lausn“, að reisa múr, væri ekki leið til að leysa 21. aldar vandamál.
Repúblikanar hafa sömuleiðis gagnrýnt forsetann fyrir að það sem þeir telja algeran viðsnúning þegar kemur að málum sem hann barðist fyrir í kosningabaráttunni, en Biden barðist þar harkalega gegn byggingu múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.