Verndarsjóður Villtra Laxastofna (NASF) fékk Gallup til að vinna könnunina þar sem tæplega 1700 manns víðs vegar um landið voru spurðir í netkönnun.
Niðurstöðurnar koma í kjölfar fregna af umhverfisslysi hjá Arctic Fish í Patreksfirði þar sem áætlað er að um 3500 frjóir sex til sjö kílóa eldislaxar hafi sloppið út um göt á sjókvínni. NASF telur að umfang umhverfisslysins hafi ekki orðið að fullu ljóst þegar spurt var.

„Og sér reyndar ekki enn fyrir endann á þessu stærsta mengunarslysi Íslandssögunnar.“
Einnig var spurt hve jákvætt eða neikvætt fólk væri gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum en staðan hefur verið tekin á viðhorfi landsmanna þrisvar áður, í febrúar 2021, ágúst 2021 og síðast í febrúar 2023.
63,5% landsmanna kveðast nú neikvæðir í garð sjókvíaeldis. Í febrúar 2021 voru 33,2% neikvæð í garð sjókvíaeldis, í ágúst 2021 voru 55,6% neikvæð og í febrúar síðastliðinn voru 61,4% neikvæð. Einungis 14% landsmanna eru jákvæð gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum. Ef aðeins er litið til landsbyggðarinnar eru í dag 56% neikvæð gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum.
Þá var einnig spurt um þrjár fullyrðingar:
- Hvort banna ætti laxeldi í opnu sjókvíum við Ísland
- Hvort leyfa ætti áfram laxeldi í opnum sjókvíum við Ísland
- Hvort hvorug fullyrðingin kæmist nálægt viðhorfi viðkomandi
Síðast var spurt í febrúar síðastliðinn en þá voru 52,4% af þeim sem tóku afstöðu á því að banna ætti laxeldi í opnum sjókvíum við Ísland. Fylgi við þá skoðun hefur aukist í 57,5%. Fækkað hefur lítillega í hópi þeirra sem vilja leyfa laxeldi í opnum sjókvíum áfram úr 22,8% í 20,8%.

Landssamband veiðifélaga, Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF), Icelandic Wildlife Fund, Landvernd umhverfisverndarsamtök og VÁ - Félag um vernd fjarðar hafa í samráði við bændur og landeigendur víða um land boðað til samstöðufundar og mótmæla á Austurvelli laugardaginn 7. október til að krefjast þess að stjórnvöld stöðvi sjókvíaeldi.

„Á samstöðufundinum munu bændur, landeigendur og náttúruverndarsinnar og aðrir fjölmenna til Reykjavíkur og mótmæla á Austurvelli kl. 15:00. (). Þá hefur einnig verið sett af stað undirskriftarsöfnun af hálfu NASF þar sem þess er krafist að ráðamenn bindi enda á sjókvíaeldi á Íslandi.“