„Við þekktumst ekkert en samt ætla ég að fá að kalla hann vin minn,“ skrifaði Viktor um Jóa í minningargreininni sem birtist í Morgunblaðinu á miðvikudag í síðustu viku. „Nú vil ég með þessum fáu línum þakka þér fyrir að gera lífið betra; því ég er næsta viss um að þú hafðir sömu jákvæðu áhrifin á miklu fleiri en mig. Takk fyrir mig.“
Og minningargreinin, þó stutt og látlaus væri, vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum; fangaði eflaust tilfinningar sem margir kannast við gagnvart heiðursfólki í þjónustustörfum sem verður á vegi þess í dagsins amstri. Greinina má lesa í færslunni hér fyrir neðan.
Fallegasta minningargrein dagsins ❤️ pic.twitter.com/kp4QX8p1Fu
— Birta Björnsdóttir (@birtabjoss) September 19, 2023
Gekk alltaf brosandi út úr búðinni
„Það hafa allir sem verða á vegi okkar einhver áhrif á okkur,“ sagði Viktor í Íslandi í dag í gær. „Þetta var samt ótrúleg tilfinning. Ég sá minningargreinar um hann í blaðinu og þá kviknaði þessi þörf til að skrifa þetta.“
Og hún hefur ekkert kviknað áður?
„Nei, ég er enginn rithöfundur. Ég er ekkert ljóðskáld. Þetta kom og ég bara varð að gera þetta. Maður labbaði alltaf brosandi út, hann var svona eins og félagi. Ég vissi ekki einu sinni hvað hann hét maðurinn, fyrr en ég sá minningargreinina. Og ég hugsaði að hann hafi hjálpað mér að verða betri maður, þó hann hafi ekki vitað af því. Og örugglega fleiri.“
Brot úr Ísland í dag-þætti gærkvöldsins má horfa á hér efst í fréttinni. Í þættinum leggjum við einnig leið okkar í Bónus í Holtagörðum og hittum Amöndu Rós Zhang afgreiðslukonu sem þekkt er fyrir líflega framkomu og ljúft viðmót. Þáttinn í heild má nálgast á Stöð 2+.