Lögreglufólki varð heimilt að nota rafbyssur í lok janúar þegar fyrrverandi dómsmálaráðherra undirritaði reglubreytingu þess efnis. Breytingin var afar umdeild í samfélaginu og innan ríkisstjórnarinnar. Í sumar ákvað nýr dómsmálaráðherra í samráði við lögregluna að hefja innleiðingu rafbyssa og nú er þjálfun hafin.
Leiðbeina íslenskum þjálfurum
Erlendir sérfræðingar frá fyrirtækinu Axon hafa verið á landinu síðustu daga og þjálfað innlenda sérfræðinga sem munu sjá um þjálfun lögreglumanna hér á landi þegar þar að kemur. Justin Shute, leiðbeinandi frá Axon fyrir Skandinavíu, segir rafbyssurnar öruggari en margt annað.
Rafbyssurnar framleiði um þúsund volta rafspennu sem berist með tveimur vírum í tvær pílur sem stingast í manneskjuna. „Þær gefa rafstuð til vöðvanna og lætur þá herpast saman. Við köllum þetta að lama taugar og vöðva. Þetta gerist um leið og pílurnar lenda í líkamanum og líkaminn læsist. Svo það er þegar í stað hægt að gera hættuna óvirka,“ útskýrir Justin.

Sársauki í fimm sekúndur
Justin segir sársaukann vara í um fimm sekúndur á meðan straumurinn standi yfir en að því loknu séu engin frekari óþægindi eða fylgikvillar. Ákvörðun Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um að leyfa notkun rafbyssa var umdeild og vakti óhug meðal almennings.
„Rafbyssur eru ný tækni og það er skiljanlegt að fólk hafi efasemdir um nýja tækni. Sannleikurinn er sá að rafbyssur eru öruggari en næstum öll önnur valdbeiting lögreglunnar. Það eru minni líkur á að lögreglumenn slasist og þetta veldur minni meiðslum á almenningi en þau vopn sem lögreglan hefur nú þegar,“ segir Justin.
Rafbyssur hafi fælingarmátt
Dæmin sýni að í flestum tilfellum þurfi ekki að grípa til notkunar rafbyssa. „Þetta er áhrifaríkast sem fælingartæki og kannski mun Íslendingum finnast þeir öruggari vitandi að þeir hafi áhrifaríkari fælingartæki sem eru ólíklegri til að slasa almenning,“ segir hann jafnframt.

Drífa hátt í fjórtán metra
Að sögn Justins er drægni rafbyssunnar um fjórtán metrar og allt í tengslum við þær skráist sjálfkrafa niður og sé vistað, allt frá því að byssan er tekin úr hulstrinu og þar til henni er skilað.
Birna Blöndal Sveinsdóttir lögreglufulltrúi mun sjá um þjálfun lögreglunnar hér á landi þegar þar að kemur. Hún ákvað að láta prófa skjóta sig með rafbyssu og segir Birna reynsluna ólíkt öllu öðru sem hún hefur prófað enda sé afleiðingin tímabundin vöðvalömun.

Tímabundin vöðvalömun
„Þetta er svolítið skrítið af því þú finnur þetta í öllum vöðvum líkamans. Þú spennist öll upp og þetta er vont en um leið og straumurinn er búinn þegar þessar fimm sekúndur eru liðnar þá er þetta bara búið,“ segir Birna og bætir við að straumurinn valdi einnig ákveðinni viðhorfsbreytingu.
„Ef ég hefði verið í árásarham eða að streitast á móti þá voru þessar fimm sekúndur alveg nóg fyrir mig til að fá mig til að skipta um skoðun og haga mér betur.“
Sérðu fyrir þér að prófa aftur?
„Einu sinni er alveg nóg,“ segir Birna og hlær.