Rútuslysið varð þegar rúta valt um þrettán kílómetra suður af Blönduósi á föstudagsmorgun. Um borð voru tuttugu og tveir starfsmenn nokkurra þjónustukjarna hjá Akureyrarbæ.
Starfsmennirnir höfðu verið í vinnuferð í Portúgal og var rútan að ferja þá aftur heim frá Keflavíkurflugvelli. Sjö voru fluttir til Reykjavíkur vegna slyssins en þeir sem voru minna slasaðir voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri.
„Þetta var náttúrulega gífurlegt áfall,“ segir Karólína í samtali við Vísi, sem útskýrir að áfallateymi hafi tekið á móti fólkinu strax á föstudag og að í þessari viku verði frekari áfallaaðstoð áætluð fyrir fólkið.
Karólína segist upplifa mikinn samhug í fólki gagnvart þeim sem lentu í slysinu. „Það eru allir tilbúnir að veita alla þá hjálp sem þarf,“ segir hún.
„Við auðvitað þökkum fyrir að ekki hafi farið verr,“ segir Karólína að lokum.