Það var að sjálfsögðu flaggað í réttunum í morgun, sem hófust klukkan 10:00 og stóðu fram yfir hádegi. Veðrið hefði getað verið mun betra en bændur og þeirra fólk létu það nú ekki hafa áhrif á sig.

„Hér er gleðin við völd. Lömbin líta ágætlega út en eru auðvitað svolítið niðurringd eftir nóttina og síðasta dag en þau líta mjög vel út,” segir Jón Bjarnason, sauðfjárbóndi og fjallkóngur Hrunamanna.
„Hrunamenn eru mjög ánægðir með daginn enda er þetta mikill hátíðisdagur. Þetta er svona einn af þessum stórum hátíðisdögum enda er gefið frí í skólanum og leikskólanum þannig að það geti allir komið og notið,” segir Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps.

„Það er alltaf fjör í réttunum enda mikið um að vera. Lömbin eru allt í lagi en ekkert of væn en ég held að það sleppi til,“ segir Þorsteinn Loftsson, sauðfjárbóndi í Haukholtum.

Helgi Sigurður Haraldsson frá Hrafnkelsstöðum mætti með tvo Breta í réttirnar, sem hafa unnið mikið fyrir landbúnaðinn þar í landi en ákváðu að koma til Íslands til að kynna sér íslenska sauðféð og réttarstemminguna. Helgi mun verja tíma með þeim um helgina og fara með þá í fleiri réttir.

