„Ljósleiðarinn er öflugt félag með jákvæða ásýnd og stendur á tímamótum um þessar mundir sem kallar á töluverðar breytingar hjá félaginu á næstu misserum, bæði í sölustarfi og uppbyggingu, rekstri og eftirliti með virkum innviðum um allt land,“ segir Einar.
„Að auki liggur fyrir að efla fjárhagslegan styrk félagsins og breytingar á eignarhaldi í því samhengi til að fá inn fé til uppbyggingarinnar sem og að takast á við verðugan keppinaut sem er kominn í erlenda eigu.“
Einar er með B.Sc. gráðu í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur starfað sem forstöðumaður rekstrar og upplýsingaöryggis hjá Vodafone auk þess sem hann leiddi upplýsingatæknimál félagsins.
Þá var hann forstöðumaður þjónustu hjá Advania og síðar framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála. Frá árinu 2021 hefur Einar starfað hjá heilsutæknifyrirtækinu Sidekick Health. Þar bar hann ábyrgð á vörumótun og fór yfir skipulagningu á tæknilegum rekstri og innviðum.
„Ég tel að reynsla mín af öguðum rekstri, upplýsingaöryggismálum og sjálfvirkum ferlum, ásamt umbreytingum og stefnumiðaðri uppbyggingu muni reynast Ljósleiðaranum vel. Ég mun koma með ný sjónarhorn inn í félagið en mæti um leið með staðgóða þekkingu og skilning á markaðnum sem félagið starfar á.“ segir Einar.