Í fréttatilkynningu segir að hluthafar í nýju eignarhaldsfélagi séu einvörðungu þeir sem áður voru hluthafar í því félagi sem nú er Bláa lónið Svartsengi ehf.
Einnig segir að áfram sé unnið að fyrirhugaðri skráningu félagsins á aðalmarkað Nasdaq á Íslandi og að nú sé horft til vorsins 2024. Með því sé tryggt að ofangreindar skipulagsbreytingar verði að fullu komnar til framkvæmda auk þess að heilt rekstrarár, eftir COVID-19, liggi fyrir.
Endanleg tímasetning muni þó ráðast af markaðsaðstæðum og framvindu undirbúningsvinnu.

Fjölbreyttur og fjölþættur rekstur
Þá segir að öll félög innan samstæðu Bláa lónsins hf. muni verða að fullu í eigu hins nýja eignarhaldsfélags eftir breytingarnar. Þau eru eftirfarandi:
- Bláa Lónið Svartsengi ehf. annast allan rekstur í Svartsengi en undir hann fellur Bláa Lónið, hótelin Silica og The Retreat, heilsulindin Retreat Spa, veitingastaðirnir Lava, Retreat Spa Restaurant, Moss og Blue Café auk reksturs Lækningalindar og Rannsókna- og þróunarseturs.
- Íslenskar Heilsulindir ehf. sem er eignarhaldsfélag um hluti í öðrum baðstöðum og ýmis þróunarverkefni, þar með talið uppbyggingu félagsins í Kerlingarfjöllum og Þjórsárdal.
- Blue Lagoon Skincare ehf. sem annast þróun, framleiðslu og sölu húðvara innanlands og erlendis.
- Blue Lagoon Journeys ehf. sem er þróunarfélag um afþreyingartengda þjónustu innan samstæðunnar.
- Eldvörp ehf. sem rekur allar fasteignir félagsins.
Breytingarnar eru liður í áætlun félagsins um að „einfalda skipulag, skerpa sýn og auka hagkvæmni í rekstri fyrrgreindra félaga“.
Starfsemi Bláa lónsins hf. hefur orðið fjölþættari síðustu misseri en þar má nefna nýafstaðna uppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum, fyrirhugaðar framkvæmdir í Þjórsárdal og aukna áherslu á markaðssetningu húðvara félagsins erlendis.