Ísland hefur tekið þátt í Norrænum dómarskiptum karla mörg undanfarin ár en ástæða þess að Ísland hefur ekki tekið þátt í þessum skiptum kvennamegin er skortur á konum sem vilja leggja dómgæslu fyrir sig.
Knattspyrnusamband Íslands segir frá því og fagnar þeirri staðreynd að konum í dómgæslu hefur fjölgað það mikið á Íslandi að Ísland getur tekið þátt í þessum skiptum með kvendómara í fyrsta sinn.
Á morgun, laugardaginn 19. ágúst, munu Soffía Ummarin Kristinsdóttir og Bergrós Lilja Unudóttir dæma leik NSÍ og B36 í efstu deild kvenna í Færeyjum. Soffía sem dómari og Bergrós sem aðstoðardómari.
NSÍ er í öðru sæti deildarinnar en B36 er fimm stigum á eftir í fjórða sætinu.
Bergrós Lilja dæmdi stórleik Stjörnunnar og Breiðabliks í síðustu umferð Bestu deildar kvenna en Soffía dæmdi síðast leik Keflavík og Stjörnunnar í Bestu deild kvenna. Soffía hefur dæmt fleiri leiki í sumar og báðar hafa þær staðið sig vel.