Maðurinn var ákærður fyrir að hafa sent konunni 93 tölvupósta á tímabili þar sem hann sætti nálgunarbanni gagnvart henni. Níu póstanna innihéldu hótanir sem voru til þess fallnir að vekja hjá henni ótta um líf hennar og heilbrigði. Tölvupóstanna níu má lesa í dómi Héraðsdóms Reykjaness.
Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa sent konunni fjölda smáskilaboða yfir annað tímabil, en þá sætti hann einnig nálgunarbanni. Í þeim skilaboðum fólust meðal annars beinar hótanir um líflát.
Sendi konunni kynferðislegar myndir af henni sjálfri
Loks var maðurinn ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa sent konunni þrjár kynferðislegar myndir af henni sjálfri án hennar samþykkis.
Þess var krafist að maðurinn yrði dæmdur til refsingar og til þess að greiða allan sakarkostnað. Þá gerði konan einkaréttarkröfu upp á 1.870 þúsund krónur. Hún fór fram á 620 þúsund krónur í skaðabætur og 1.250 krónur í miskabætur.
Maðurinn játaði sök í málinu og samþykkti að greiða kröfu konunnar, eftir að hún hafði lækkað hana í áðurgreinda fjárhæð.
Með dóma á bakinu
Maðurinn var dæmdur til átta mánaðar óskilorðsbundinnar refsingar. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að hann hefur áður hlotið tvo refsidóma fyrir sambærilegt athæfi, meðal annars tólf mánaða dóm í Landsrétti fyrir brot í nánu sambandi.
Í einum skilaboðum mannsins má lesa að hann hafi verið í fangelsi þegar hann sendi konunni þau.