Þar segir að opnað hafi verið fyrir útboð á gjafavöruverslun í febrúar á þessu ári og sendu þrjú fyrirtæki inn gögn til þátttöku. Öll uppfylltu þau hæfiskröfur útboðs og var boðið að skila inn tilboðum og taka þátt í viðræðuferlinu.
Segir í tilkynningu Isavia að við mat á tilboðunum hafi verið horft til tveggja meginþátta, fjárhagslega hlutans og tæknilegrar útfærslu. Sérfræðiteymi eru á bak við hvorn matsflokk en meðal þess sem hefur áhrif á matið er vöruframboð, verðlagning og gæði, þjónusta við viðskiptavini, hönnun og útlit verslunar, sjálfbærni og markaðssetning.
„Allt frá stofnun Rammagerðarinnar árið 1940 hefur megináhersla okkar verið á að styðja við íslenska hönnun og gjafavöru með sérstakri áherslu á ullarvörur. Við vinnum með íslenskum hönnuðum og framleiðendum og fögnum því að geta boðið gestum Keflavíkurflugvallar upp á vandað íslenskt handverk í nýrri og glæsilegri verslun okkar í flugstöðinni,“ er haft eftir Ólöfu Kristínu Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Rammagerðarinnar.
„Við höfum átt farsælt samstarf við Rammagerðina síðastliðin ár og hlökkum til að halda því áfram. Rammagerðin er rótgróið íslenskt fyrirtæki með vandaðar íslenskar hönnunar- og gjafavörur sem passar vel í flóru verslana á Keflavíkurflugvelli. Við tökum á móti breiðum hópi gesta með mismunandi þarfir og viljum að úrval verslana endurspegli það en ýti jafnframt undir íslenska upplifun,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia í tilkynningunni.