„Það sem við sjáum er að þetta er stutt gossprunga og afllítið gos og mjög lítið, enn sem komið er,“ segir Magnús í Reykjavík síðdegis. Hann segir gossprunguna um 200 metra langa, en setur fyrirvara á þær upplýsingar þar sem svæðið hafði ekki verið skoðað þegar þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis náðu tali af honum.
„Við verðum að bíða og sjá hvernig gosið þróast en þetta virðist vera í takt við fyrsta gosið að því leyti að þetta fer mjög rólega af stað,“ segir hann og vísar til eldgossins í Fagradalsfjalli sem hófst í mars 2021. „Við erum vissulega ekki að sjá neitt stórgos fara af stað.“
Magnús segir hraunið koma til með að renna í suðurátt og því langt frá innviðum. Hann segir eldgosið „mjög í takt við hin gosin“ sem hafa orðið á svæðinu síðustu tvö ár.