„Foreldrar okkar voru bæði með rekstur nánast á sama plássinu við Laugarveginn, segir Hildur þegar hún lítur til baka og viðurkennir að það sé í raun stórfurðulegt að leiðir þeirra hafi ekki legið saman löngu áður en þau hittust fyrst.“
Alltaf óafvitandi á sömu stöðum
Foreldrar Kristjáns, Jón Ólafsson og Helga Ólafsson ráku sem þekkt er Skífuna, en foreldrar Hildar áttu verslunina Leðurlínuna sem staðsett var beint á móti Skífunni. Hildur á því ótal minningar af sér á þvælingi meðan Kristján, sem er eldri var þá farinn að selja geisladiska í búð foreldra sinna beint á móti.

„Það er svo skrítið að hugsa til þess að í gegnum öll þessi ár höfum við alltaf verið staðsett á svipuðum slóðum, óafvitandi.“
Mörgum árum síðar flutti Hildur til Bandaríkjanna, nánar tiltekið í hverfið Ventura í Orlando þar sem hún settist á skólabekk. Í sama hverfi bjó amma Kristjáns sem hann heimsótti oft. En á þessum tíma höfðu Hildur og Kristján hvorugt hugmynd um tilvist hins.

„Þegar ég fluttist aftur heim til Íslands vann ég mikið á skemmtistöðum, einna helst Vegamótum en þar var Kristján mikill fastakúnni, ég tók samt aldrei eftir honum.“
Vildi byrja nýtt líf
Það var ekki fyrr en árið 2006 sem Hildur lagði land undir fót á ný og fluttist aftur vestur um höf til Los Angeles. Sama ár tók Kristján sömu ákvörðun.
„Við höfðum oft verið undir sama þaki án þess að taka eftir hvort öðru.“
Eftir að hafa bæði búið í borginni í sjö ár lágu leiðir þeirra loksins saman. Hildur hafði þá verið í þriggja ára ofbeldisfullu sambandi við amerískan mann en eftir þau sambandsslit ákvað hún að snúa blaðinu við og byrja nýtt líf.
Ef þú giftist honum ekki þá geri ég það
Planið var að vinna, ferðast og forðast karlmenn. „Ég vildi bara njóta frelsisins. Þremur mánuðum síðar hitti ég Kristján. Við vorum fyrir tilviljun bæði stödd í New York. Ég gleymi aldrei símtalinu sem ég átti við móður mína á þá leið að ég hefði hitt íslenskan mann í New York sem byggi líka í Los Angeles. Hennar fyrsta spurning var, hvað hann ætti eiginlega mörg börn og svar mitt var að hann væri barnlaus. Það þótti henni undarlegt en sagði svo: Ef þú giftist honum ekki þá geri ég það.“
Miklir frumkvöðlar
Sambandið var fljótt að þróast og í dag eiga þau Hildur og Kristján fjögur börn og fullt af gæludýrum.

„Við eignuðumst fjögur börn á sex árum, þrjár stelpur og einn strák. Við erum bæði miklir frumkvöðlar og okkar helstu verkefni eru Helix7 vodki, Askur Yggdrasil gin, Lagoon Bay, Icelandic Glacial water, Norom og Little river print shop.“

Rekum hálfgerðan dýragarð á heimilinu
Það er óhætt að segja að nóg sé að gera á annasömu heimili en parið býr sem stendur í Miami sem hún líkir við paradís.
„Við búum á eyju þar sem við ferðumst um golfvelli og erum rík af vinum sem eru með börn á sama aldri og okkar. Hér er bæði stutt í skóla og vinnu, strönd og fjör.

Ég er sjálf svo dýrasjúk að við rekum hálfgerðan dýragarð hérna hjá okkur en við erum með hund, kött, svín og geitur.
Öll orðin synd fyrir tveggja ára aldur
Við keyptum okkur nýverið hús við vatnið þar sem faðir minn eyðir öllum sínum kvöldstundum í að veiða. Í garðinum okkar er sömuleiðis sundlaug og öll börnin okkar voru orðin synd fyrir tveggja ára aldur.

Ég get alveg sagt með sanni að lífið leiki við okkur en við höfum líka unnið vel fyrir því og að baki liggur margra ára strembin vinna til þess að koma okkur vel fyrir í lífinu. Svo eru auðvitað mörg spennandi verkefni framundan.“
Hér fyrir neðan svarar Hildur spurningum úr viðtalsliðnum Ást er.
Fyrsti kossinn: Mjög óvæntur. Ég rakst á hann í New York árið 2013. Þá hafði ég farið til Manhattan til að hitta hjartaskurðlækni frá Austurríki sem ég var mjög spennt fyrir. Kvöldið breyttist og ég vaknaði í faðmi Kristjáns. Síðar kom í ljós að hann var yfirmaður míns fyrrverandi. Óþarfi að fara nánar út í það en ég vona innilega að minn heittelskaði fái aldrei hjartaáfall í Austurríki.

Uppáhalds rómantíska kvikmyndin mín er: Family man er ein af mínum uppáhalds. Þetta er svo frábær saga. Við Kristján erum rosalega business driven og ólík í mörgu en við ræðum alla daga markmið okkar og framtíð fyrir fjölskylduna. Mér finnst svo gaman að fylgjast með aðalpersónu myndarinnar og hvernig hann er sjúkur í konuna sína en dreymir líka stórt. Hann býr sér til tíma fyrir bæði fjölskyldu og vinnu.
Break up ballaðan: Ég hef sem betur fer sjaldan verið í ástarsorg. Ég man samt eftir einu lagi sem ég hlustaði á fyrir löngu – Let me love you með Mario. Ég ítreka það er mjög langt síðan. En ef ég verð leið hlusta ég á With or without you með U2.

Lagið okkar: Við hlustuðum mikið á Ásgeir Trausta í árdaga sambandsins. Þegar ég heyri þau lög í dag hverf ég aftur í tímann þegar við vorum að kynnast. En í einhverju gríni varð lagið okkar Everytime you og away með Paul Young lagið okkar því hann er alltaf að ferðast. Hringitónninn þegar Kristján hringir í mig er hins vegar I got you – I feel good með James Brown. Öllum bregður í brækurnar yfir látunum þegar síminn hringir.
Rómantískt stefnumót: Þeim fækkar með árunum en við vinnum í störfum sem krefjast viðveru á kvöldin. Okkar uppáhalds er að drekka saman vín þegar krakkarnir eru sofnaðir og plana framtíðina saman.
Maturinn: Við erum mjög ólík þegar kemur að mat. Eina sem við sameinumst um er sushi og mexíkóskur matur. Ég borða ekki kjöt og hann er lítið fyrir súpur og salöt svo það er margra rétta matur hjá okkur öll kvöld. Annars yrði ég bara sátt með Spicy tuna samloku frá Joe and the Juice alla daga – meira að segja á jólunum. Ég er ódýrt deit,“ segir Hildur í léttum tón.

Fyrsta gjöfin til hans: Hún var algjört djók. Ég hafði kvartað svo mikið yfir matarvenjunum hans Kristjáns og kallað hann ruslatunnu, í gríni auðvitað. Þá meina ég að leyfa öllu þessu rusli ofan í sig. Svo ég gaf honum stóra tunnu með allskonar snakki, nammi og öðru drasli því hann elskar að prófa alla skrítna drykki. Hann var alveg í skýjunum með þetta.
Fyrsta gjöfin sem hann gaf þér: Hann gaf mér kaffivél frá Nespresso. Ég get ekki lifað án kaffi og kaffivélin mín var hreinlega of lengi að búa til kaffið mitt á morgnanna. Ég er alltaf á svakalegri hraðferð. Jú svo gaf hann mér líka djúsvél því gamla mín var of hávær fyrir hann á morgnanna.

Maðurinn minn er: Svo margt. Allir sem þekkja hann elska hann. Það er alltaf hægt að stóla á hann og treysta honum til alls. Hann er góður, þolinmóður, skemmtilegur, gjafmildur, yndislegur pabbi, geggjaður kokkur, leyfir mér að vera ég og elskar mig eins og ég er. Hann er líka mjög félagslyndur og ómissandi í öll partý.

Rómantískasti staðurinn okkar er: Garðurinn okkar í Miami. Þar eigum við okkar bestu stundir.