Bræðurnir að norðan, þeir Atli og Orri Sigurjónssynir, voru báðir á skotskónum með sínum liðum, Atli fyrir KR en Orri fyrir Fram.
Atli skoraði fyrra markið í 2-0 sigri KR á botnliði Keflavíkur en hitt mark Vesturbæjarliðsins skoraði Ægir Jarl Jónasson.
Orri skoraði markið sem skildi á endanum á milli liðanna í 3-2 sigri Fram á HK. Orri kom Framliðinu í 3-1 en HK-ingar minnkuðu muninn í blálokin.
Auk Orra þá skoruðu Frederico Bello Saraiva og Guðmundur Magnússon fyrir Fram en mörk HK skoruðu þeir Atli Hrafn Andrason og Ahmad Faqa.
Eyjamenn unnu 2-0 heimasigur á KA í fyrsta leik gærdagsins en Oliver Heiðarsson skoraði seinna markið á stórglæsilegan hátt eftir að hafa lagt upp það fyrra fyrir Bjarka Björn Gunnarsson.
Þrettánda umferð Bestu deildar klárast síðan í kvöld með tveimur leikjum þegar Stjarann tekur á móti nágrönnum sínum í FH og Fylkismenn fá topplið Víkinga í heimsókn.
Hér fyrir neðan má sjá öll mörkin úr leikjum gærkvöldsins.