Þetta kemur fram í samkomulagi um sátt Seðlabankans við Íslandsbanka. Þar segir jafnframt að í ljósi þess að símtalsupptökur liggja ekki fyrir nema að litlu leyti hjá Íslandsbanka, sé ekki hægt að segja til um í hve mörgum tilfellum starfsmenn bankans veittu rangar upplýsingar um að krafa væri um lágmarksfjárhæð í útboðinu.
Í símtali forstöðumanns hjá bankanum við viðskiptavin, þar sem honum er boðin þátttaka í útboðinu, kemur meðal annars fram að viðskiptavinurinn hafi talið að útboðið væri einungis ætlað hæfum fjárfestum en ekki einstaklingum eins og honum.
„Forstöðumaðurinn svarar honum að hann sé ekki að hringja í hann sem einstakling heldur sem viðskiptavin Eignastýringar sem geti komið inn sem fagfjárfestir í gegnum Eignastýringu málsaðila. Þá upplýsti forstöðumaðurinn viðskiptavininn að lágmarksfjárhæð til að taka þátt sé 20 milljónir króna. Viðskiptavinurinn spurði síðan hvort nöfn þeirra aðila sem kaupi í útboðinu verði gefin upp og svarar forstöðumaðurinn að hann sendi bara inn heild en hafi lista um viðskiptavini hjá sér,“ segir í samkomulaginu.
Veitti Bankasýslunni einnig villandi upplýsingar
Í samkomulaginu segir að fyrir liggi að níu viðskiptavinir bankans höfðu ekki fengið staðfestingu á flokkun sem fagfjárfestar, þegar útboðinu lauk. Hefði því með réttu átt að fjarlægja tilboð þeirra úr tilboðsbók þar sem tilboðin uppfylltu ekki skilmála Bankasýslunnar.
Þá segir að með því að gera 99 almennum fjárfestum kleift að taka þátt í útboðinu, í gegnum eignastýringaþjónustu bankans, sé það mat fjármálaeftirlitsins að bankinn, sem einn þriggja umsjónaraðila útboðsins, hafi ekki gætt hagsmuna Bankasýslunnar af því að farið yrði að skilmálum útboðsins.
„Þá ýtir það undir alvarleika háttseminnar að málsaðili fór ekki að skilmálum Bankasýslunnar og að forstöðumaður hjá málsaðila veitti viðskiptavinum rangar upplýsingar um skilmála útboðsins, en gera verður ríkar kröfur til þess að starfsmenn og stjórnendur verðbréfafyrirtækja þekki vel þær vörur og þjónustu sem boðin er hverju sinni.“
Athygli vekur að Sveinbjörn Sveinbjörnsson lét af störfum sem forstöðumaður eignastýringar hjá Íslandsbanka í mars síðastliðnum. Hann hafði sinnt starfinu frá árinu 2018.