Veiði

Laxárdalurinn sýnir sínar bestu hliðar

Karl Lúðvíksson skrifar
Robert Novak með flottan urriða úr Laxárdalnum
Robert Novak með flottan urriða úr Laxárdalnum

Laxárdalurinn er sífellt að koma sterkari inn eftir að skylduslepping var sett á og veiðin á sama tíma verður sífellt betri.

Ofan á þetta bætist svo að urriðinn bara stækkar og það telst ekkert tiltökumál að urriðum milli 60-70 sm sé landað í hverju holli og 50-60 sm fiskar er bara orðið normið. Þetta var ekki alltaf staðan og það er þess vegna sem veiðimenn sækja sífellt fleiri í að komast að á þessu skemmtilega svæði sem hefur of lengi verið í Skugga svæðisins fyrir ofan sem er Laxá í Mý. Alls ekki skilja það sem svo að ég sé að gera minna úr því. Svæðin eru ólík, bæði mjög skemmtileg en fiskurinn er bara heilt yfir stærri í dalnum.

Hjörleifur Steinarsson var að koma úr Laxárdalnum og gerði feykna góða ferð, Hann sendi okkur smá fréttaskot og myndir sem ættu að auka spennuna hjá þeim sem eiga daga þarna í sumar.

"Sæll kappi. Smá fréttaskot úr Laxárdalnum, vorum við veiðar í Laxárdalnum 16-19 júní, komum í dalinn í frábæru veðri og tókum við af Caddis bræðrum sem gerðu frábært mót með sín holl. Við vorum með blandað holl, vanir silungsveiðimenn og líka óvanir veiðimenn. Óhætt að segja að Dalurinn hafi skartað sínu fegursta og tekið okkur opnun örmum, allir að setja í fiska og mikið líf á köflum. Hollið endaði í rúmlega 40 fiskum lönduðum, hellingur misst og mikil gleði við völd. Umhverfið í Dalnum er stórkostlegt og ekki spillir þetta frábæra veiðihús heldur, við bókum pottþétt að ári!"






×