Listdansskólinn Plié hefur verið starfræktur síðan árið 2014. Þar geta nemendur æft margar tegundir dans, til að mynda „acrobat“, stepp og ballett. Að sögn eigenda Plié stunda 600 til eitt þúsund nemendur listdansnám við skólann ár hvert. Rekstrarform listdansskóla á Íslandi sé gríðarlega erfitt þar sem skólarnir njóti ekki stuðnings hins opinbera.
Elva Rut Guðlaugsdóttir, skólastjóri og annar eigandi Plié, var á mótmælunum ásamt nemendum sínum. „Við erum komin til þess að opna á þessa endalausu umræðu um hvað er mikil ósanngirni á milli greina. Listgreinar fá engan stuðning frá hinu opinbera en íþróttir og tónlist fá stuðning. Þannig að það að halda úti rekstrinum er orðið gríðarlega krefjandi. Þetta er orðið þannig að allir listdansskólar munu væntanlega leggjast af ef ekkert er gert.“

Kolbrún Soffía Þórsdóttir, nemandi í skólanum, var einnig á mótmælunum en hún segir óvissuna mikla og að hún sé erfið. Hópurinn sé á leið á heimsmeistaramót eftir tuttugu daga og viti ekkert hvar þau eigi að æfa. Hingað til hafi hópurinn æft í kirkju. „Við viljum fá styrk alveg eins og allar aðrar íþróttir því dans er líka íþrótt,“ segir Kolbrún Soffía.
Ármey Elba Ernudóttir æfir einnig dans við listdansskólann. Hún segir leiðinlegt að heyra að dans flokkist ekki sem íþrótt.